Umhverfisvæn kerti

Umhverfisvæn kerti

Veistu hvað veldur því að sum kerti eru umhverfisvæn og hrein? Eins og kerti eru frábær fyrirbæri þá hafa þau einnig sínar dökku hliðar. Mengun, sót og ofnæmisvaldandi efni er því miður fylgifiskur margra kerta á markaðinum. Það er því mikilvægt að vita hvernig við getum valið kerti sem hafa sem minnst skaðleg áhrif á umhverfi okkar og heilsu. Gott er að hafa í huga að kaupa kerti úr náttúrulegu vaxi eins og soja, býflugna- eða repjuolíuvaxi. Hér eru nokkur hrein gæðakerti sem við mælum með.

Ilmandi handverki

Ilmkertin frá Rammagerðinni eru handgerð á Íslandi í litlu magni. Það sem gerir þau einstök er að hvert glas er handrennt af Aldísi Einarsdóttur, leirlistakonu, og því er ekkert glas eins. Hægt er að nýta fallega glasið áfram, undir blóm, penna eða hvað sem er. Kertið sjálft er úr 100% sojavaxi frá Reyk. Þráðurinn er blýlaus og unninn úr bómull og pappír. Hægt er að fá kertin í fimm ilmtegundum sem unnar eru úr hágæðaolíum frá Bandaríkjunum, án viðbættra efna. Hægt er að velja hvort þau komi í endurnýtanlegum bómullarpoka eða án allra umbúða. rammagerdin.com

Hreint býflugnavax

Þessi klassísku bývaxkerti eru frá Dipam, lítilli kertaverksmiðju í Hollandi, sem leggur mikla áherslu á sjálfbærni. Býflugur framleiða vax til að byggja upp býflugnabúin sín. Vaxið er svo tekið þegar þær hafa yfirgefið búið og byrjaðar að byggja upp nýtt bú, sem gerir framleiðsluna fullkomlega sjálfbæra þegar vel er að henni staðið. Dipam-kertin eru úr 100% býflugnavaxi, með lífrænan bómullarkveik án borax og umbúðirnar eru úr endurunnum pappír. Bývaxkerti brenna lengst allra kerta og hafa einstakan bjarma og ilm. Bambus.is

Bývax kaðlar

Snúnu býflugnavaxkertin frá Fjord Home eru sérstaklega fáguð. Hvert og eitt kerti er handgert í New York fylki úr 100% norður-amerísku býflugnavaxi, og er logi þeirra einstaklega bjartur. Kertin fást í níu litum, þau eru seld tvö saman og passa í hefðbundnar stærðir af kertastjökum. Sérstæð lögunin og fallegir litirnir gefa heimilinu smekklegt yfirbragð. Þau fullkomna borðhaldið og henta bæði til hátíðarbrigða og hversdags. Kertin eru 3 cm x 25.5 cm að stærð og brennslutími þeirra er 12 – 14 tímar.
Fjord Akureyri / fjordhome.is

Ljóðrænn bjarmi

Ilmkertið Bústaður frá Sóley Organics skartar íslensku ljóði eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur á einföldu en fallegu glasi, sem getur prýtt heimilið á margvíslegan hátt eftir notkun. Kertið er handgert úr vaxi, unnið úr repjuolíu, með bómullarkveik og gæða ilmkjarnaolíum. Kertið gefur frá sér hreinan loga og ljúfan ilm af granateplum, rabarbara og patchouli. Kertið logar lengi en til þess að kertið brenni jafnt og fallega er gott ráð að láta efsta lagið mynda rennandi vax áður en slökkt er á kertinu. Soleyorganics.is

Þessi grein er úr vetrarblaði Lifum betur – í boði náttúrunnar 2021