Frú Lauga og Bændum í bænum

Frú Lauga og Bændum í bænum

FRÚ LAUGA OG BÆNDUR Í BÆNUM + LIFUM BETUR

Það besta úr báðum heimum

Frú Lauga hefur lengi verið ein vinsælasta sérvöru- og sælkeraverslun landsins, þekkt fyrir að vera fyrsta verslunin í Reykjavík með áherslu á ferskar vörur beint frá bónda ásamt að bjóða upp á gæða sérvöru. Fyrir um ári síðan sameinuðust Frú Lauga og lífræni bændamarkaðurinn, Bændur í bænum, og er sá samruni mikið ánægjuefni fyrir sælkera sem einblína á lífrænar og umhverfisvænar afurðir.

„Við erum að sameina þessar tvær verslanir í Laugalæk og fáum þannig það besta úr báðum heimum,“ segir Þórður Halldórsson, grænmetisbóndi á Akri og eigandi Bænda í bænum og Frú Laugu. „Við höldum áfram að reka Frú Laugu sem sælkeraverslun með áherslu á lífrænar og Fair Trade vörur, veljum svo inn vörur frá íslenskum framleiðendum, sem uppfylla okkar kröfur og höldum áfram með netverslunina  baenduribaenum.is. Við viljum einnig gera vörurnar í búðinni aðgengilegar á netinu.“

Sælkeraverslanir sækja í sig veðrið að nýju

Þórður segir mikla grósku í heimaframleiðslu hjá íslenskum bændum sem skili sér í fjölbreyttu vöruúrvali. Þótt allir séu ekki með lífræna vottun þá eru flestir að gera góða hluti og heimaframleiðslan er alltaf best þótt hún sé ekki alltaf hagkvæmasti kosturinn.“ Hann nefnir Háafell, Erpsstaði, Akur, Móður Jörð og BioBú sem dæmi um smáframleiðendur sem verða með vörur til sölu í versluninni. Hann segir drauminn vera að koma upp útimarkaði fyrir sumarið. „Við viljum að framleiðendurnir geti komið sjálfir og kynnt vörurnar sínar.“

Mikil gróska er í heimaframleiðslu hjá íslenskum bændum

Að undanförnu hafa litlar sælkera- og sérvöruverslanir verið að sækja í sig veðrið að nýju.“ Á tímabili var mikil gróska í þessu en fyrir svona fimm árum fór að fjara undan, líklega vegna þess að stórmarkaðirnir fóru að leggja áherslu á lífrænt og sælkeraafurðir og samkeppnin er hörð. En með uppsveiflu í smáframleiðslunni hefur aftur myndast stemming fyrir þessum sérvörum og sérverslanirnar njóta góðs af því.“ Hann segir staðsetninguna við Laugalæk bjóða upp á marga möguleika.  „Bæði er þetta svæði ákaflega heillandi, mikið rými og auðvelt aðgengi en svo er þarna líka góður kjarni, ísbúð, Krambúðin, Brauð og co og Pylsumeistarinn og svo Kaffi Laugalækur. Þetta er svona sælkeratorg og möguleiki á að gera virkilega spennandi hluti,“ segir Þórður að lokum.


frulauga.is
baenduribaenum.is

TEXTI Brynhildur Björnsdóttir  MYNDIR Guðbjörg Gissurardóttir