Af hverju lífrænt?
Með því að velja lífrænt stuðlum við að því að huga betur að eigin heilsu og umhverfi. Lífrænn landbúnaður er sjálfbær og gerðar eru miklar kröfur í öllu framleiðsluferli. Ræktendur mega til að mynda ekki notast við tilbúinn áburð, skordýraeitur eða önnur eiturefni í lífrænni ræktun. Óháðir vottunaraðilar taka út allt ferlið frá ræktun til sölu í verslanir. Að auki er kveðið á um að vinnuaðstæður starfsmanna þurfa að uppfylla staðla. Evrópulaufið (lífrænt vottunarmerki ESB) gefur lífrænum afurðum sem framleiddar eru í Evrópusambandinu samræmt auðséð einkenni. Það auðveldar neytendum að þekkja lífrænt vottaðar vörur. Evrópulaufið má aðeins nota á vörur sem hafa verið vottaðar sem lífrænt ræktaðar af viðurkenndri vottunarstofu eða stjórnvöldum. Það þýðir að framleiðendur hafa uppfyllt ströng skilyrði um það hvernig þau verða að framleiða, vinna, flytja og geyma vörur sínar. Merkið má aðeins nota á vörur sem innihalda minnst 95% af lífrænt vottuð innihaldsefnum og uppfylla að auki skilyrði fyrir þessi 5% sem eftir eru. Sama innihaldsefni getur ekki verið til staðar bæði lífrænt vottað og ekki vottað. Tún vottunarstofa annast eftirlit með og tryggir að framleiðslan uppfylli alþjóðlegar kröfur um lífræna framleiðslu. Framleiðendur sem Tún vottar þurfa að uppfylla strangar reglur og reglubundið eftirlit, auk þess sem fyrirvaralausar úttektir eru gerðar árlega.