Endurvinnsla plasts
Hvernig fórum við að áður en plastið kom til sögunnar? Plast er bráðsniðugt efni sem er fjölbreytilegt, sveigjanlegt, rakaþolið, sterkt, þægilegt, hagstætt og létt svo að það er ódýrt að flytja það á milli staða. En það hefur líka sínar dökku hliðar sem við neyðumst til að horfast í augu við og gera eitthvað í því STRAX! Hér á landi var stefnt að því að endurnýta 60-85% af því plasti sem til fellur á árunum 2012-2020. Endurvinnsla plasts er mikilvæg og hér á landi er það sent utan þar sem það fær nýtt líf, t.d. sem flísfatnaður, umbúðir, sogrör, bílapartar og útihúsgögn.
Endurvinnsla plasts er vel á veg komin hér á landi en það er alltaf hægt að gera betur
Mismunur getur verið á flokkunarreglum milli bæjarfélaga sem við mælum með að lesendur kynni sér. En í grunninn er mælt með að við:
- Endurvinnum ALLT plast. Það er síðan selt úr landi þar sem það er flokkað eftir tegundum (nr. 1-7). Hér er átt við alla plastbrúsa, dollur, poka, umbúðir, lok og tappa, plast- og frauðbakka ásamt kaffiumbúðum og snakkpokum (ef ekki er hægt að krumpa það í kúlu eins og álpappír).
- Skilum ÖLLUM drykkjarflöskum með skilagjaldi á þar til gerðar endurvinnslustöðvar eða styrkjum t.d. skátana. Þumalputtareglan er að ef vökvinn hefur verið drukkinn beint úr flöskunni þá er skilagjald.
- Hreinsum plastið vel svo að það komi ekki ólykt af því. Losum plastið við ál og pappír ef hægt er, en það þarf ekki að taka merkimiða af plastumbúðum.
- Tökum með okkur plastpoka í göngutúrinn og tínum upp eða plokkum það plast sem við sjáum, sem annars myndi t.d. fjúka á haf út, og setjum það í endurvinnsluna þegar heim er komið.
Hvað þýða númerin í þríhyrningnum?
Allar plastumbúðir eru merktar með númeri frá 1-7 sem táknar að þær eru endurvinnanlegar og segir til um efnasamsetningu plastsins.
Almennt er mælt með því að við forðumst plast nr. 3 (pvc), 6 (ps) og 7 þar sem efni í þeim eru talin hættuleg heilsu okkar.
Plast nr. 1 (pet) er talið geta lekið óæskilegum efnum út í drykki eða mat eftir ákveðinn tíma eða við það að hitna, og því er ekki mælt með að slíkar plastumbúðir séu notaðar aftur og aftur.
TEXTI Sigríður Inga Gunnarsdóttir og Guðbjörg GissurardóttirÞessi grein er úr vorblaði Lifum Betur – í boði náttúrunnar 2016